top of page

Arðsemi vex með hóflegri nýtingu auðlindar

Stefnumótun varðandi móttöku skemmtiferðaskipa verður að taka mið af

heildarhagsmunum atvinnugreinarinnar



Kristófer Oliversson

Komum skemmtiferðaskipa til Íslands á sumrin fjölgar ört. Þar ræður miklu aukin áhugi erlendra útgerða skemmtiferðaskipa á siglingum um Norður Atlandshaf og velgjörðir stjórnvalda hér á landi sem greiða niður vistir og aðrar nauðsynjar með tollfríðindum. Þá hefur einnig áhrif að opinberir aðilar hafa tekið höndum saman við þau innlendu fyrirtæki sem þjónusta erlendu útgerðirnar við kynningu, markaðsmál og aðra fyrirgreiðslu hérlendis undir nafni Cruise Iceland. Fyrir skemmstu hvöttu FHG stjórnvöld til að standa við ákvörðun Alþingis frá síðustu áramótum um afnám tollafríðinda skemmtiferðaskipa innan íslenskrar lögsögu til að stuðla að réttlæti og jafnri samkeppnisstöðu fyrirtækja í greininni og fengu yfir sig aðdróttanir frá almannatengslafyrirtæki umræddra samtaka og ásakanir um að vinna gegn hagsmunum greinarinnar. Það var ekki málefnalegt.


Lenging ferðatímabilsins og aukin verðmætasköpun í forgangi

Ferðaþjónustan er auðlindagrein og því er mikið í húfi að horfa til allra þátta sjálfbærrar

þróunar og verðmætasköpunar með sem minnstum ágangi á náttúruna. Að hálfu

Reykjavíkurborgar er nú unnið að mótun stefnu varðandi móttöku skemmtiferðaskipa og

samhliða eru áform um að skilgreina þar þolmörk.

Á síðustu árum og áratugum hefur verið sátt um að vöxtur greinarinnar lúti lögmálum

sjálfbærrar þróunar og þeirri forgangsröð að lengja það tímabil sem erlendir ferðamenn

sækja Ísland heim og að efla þá þætti ferðaþjónustunnar sem skapa hvað mestu verðmætin

með vel launuðum störfum, öflugum fyrirtækjum og miklum fjárfestingum sem dreifa

verðmætunum sem víðast um samfélagið. FHG hafa talað fyrir þeirri stefnu að íslensk

ferðaþjónustan eigi að vera þekkt fyrir gæði, náttúru og einstaka upplifun. Lenging

ferðatímabilsins og aukin verðmætasköpun er þess vegna framar í forgangsröð við

stefnumótun en fjölgun ferðamanna. Í ljósi þessa er mikilvægt að skoða að hvaða leiti mikil

fjölgun ferðamanna sem gista og ferðast um á skemmtiferðaskipum samræmist þeirri sýn.


Aukið álag á álagstímum

Skemmtiferðaskip þjóna þeim hópi ferðamanna sem koma aðeins yfir háannatímann þegar

álag á auðlindir og innviði greinarinnar er hvað mest. Viðbótarálag á háannatíma dregur úr

gildi og verðmæti eftirsóttra náttúruperla landsins. Ferðamenn sem gista og snæða á

skemmtiferðaskipum og fara í dagsferðir auka álagið á vinsælustu náttúruperlur landsins og

draga því úr upplifun allra, jafnt þeirra sjálfra og annarra ferðamanna. En aukið álag á

annatíma dregur einnig úr arðsemi greinarinnar því hún kallar á lítt arðbærar fjárfestingar í

innviðum sem nýtast aðeins í stuttan tíma ársins. Tveir meginþættir sjálfbærrar þróunar er

fjárhagsleg arðsemi og hófleg nýting auðlinda. Þegar Reykjavíkurborg vinnur að stefnumótun

varðandi móttöku skemmtiferðaskipa er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að hröð

fjölgun ferðamanna í skemmtiferðaskipum ógnar markmiðum um að vöxtur greinarinnar lúti

markmiðum sjálfbærrar þróunar.


Stefnumótun í þágu uppbyggingar samfélags

Einnig er mikilvægt við slíka stefnumótun að skoða þann þátt er lítur að aukinni

verðmætasköpun í greininni en það gerist helst með því að efla og bæta framboð á vandaðri

og góðri þjónustu sem skilur eftir sig skattspor sem eftir er tekið. Vönduð og góð gisting og

fágæt veitingaþjónusta sem vekur athygli útfyrir landssteinana eru dæmi um slíka þjónustu

sem tekist hefur að byggja upp hér á landi á síðustu tveimur áratugum. Þar að baki liggur

fjárfesting í fasteignum og þekkingu og öðrum innviðum sem mikilvægt er að nýta og þróa.

Skemmtiferðaskip sem eru fljótandi gistirými og veitingaþjónusta í eigu erlendra aðila og

skráð í útlöndum eru í samkeppni við þessa innviði okkar og leggja því lítið til styrkingu þeirra

eða uppbyggingar. Til glöggvunar má nefna að á síðasta ári nam skattspor af hverju

hótelherbergi á Íslandi yfir 2 milljónum króna að meðaltali. Þar er meðtalinn

virðisaukaskattur, gistinátta- og áfengisskattar, fasteigna- og tryggingagjald og staðgreiðsla

launaskatts og útsvars. Um fjórðungur þeirrar fjárhæðar rennur til sveitarfélaga vítt og breitt

um landið. Til samanburðar má áætla að tekjur hins opinbera vegna gistináttaskatts af hverri

káetu um borð í skemmtiferðaskipi hafi numið að hámarki um 150 þúsund krónum að

meðaltali á þessu ári ef skipið hefur verið í íslenskri lögsögu 5 mánuði samfleytt, og minna

hjá þeim skipum sem höfðu skemmri viðdvöl. Fjárfesting innlendra ferðaþjónustufyrirtækja

og skattar sem þau og starfsfólk þeirra greiða er fjármunir sem renna til uppbyggingar

atvinnugreinarinnar og samfélags okkar. Það ætti að vera leiðarljós Reykjavíkurborgar við

stefnumótun í ferðaþjónustu og einstaka þáttum hennar.


Forðumst ofnýtingu og rányrkju

Ferðaþjónusta á Íslandi er auðlindagrein. Nauðsynlegt er að öll umgengni við náttúruna sé til fyrirmyndar og ekki má draga úr verðmæti þeirra með ofnýtingu og rányrkju. Þá þarf að

vanda til virðisaukandi þjónustu við þá ferðamenn sem sækja íslenska náttúru heim til að

hámarka verðmætasköpun i greininni. Saga auðlindanýtingar í heiminum kennir okkur að

arðsemin vex með hóflegri nýtingu auðlinda. FHG hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir of

hröðum vexti í komu skemmtiferðaskipa og mikilli fjölgun gesta sem á þeim búa á sumrin og

auka álagið á viðkvæmustu náttúrperlur landsins. Félagið óttast að slík þróun hvorki stuðli

ekki að sjálfbærri þróun ferðaþjónustunnar né vinni að hagsmunum ferðaþjónustunnar eða

samfélagsins í heild sinni. FHG telja að þessi sjónarmið hljóti að koma til skoðunar við

stefnumótun Reykjavíkurborgar vegna móttöku skemmtiferðaskipa og vonast til að umræðan

um þessi mál geti orðið málefnaleg.


Kristófer Oliversson er formaður Félags hótel- og gistihúsaeigenda.

Comentarios


Los comentarios se han desactivado.

Hafðu samband

Fyrir nánari upplýsingar um aðild að FHG

Bankaupplýsingar:
0515-26-680918 

Kennitala: 

680918-0150

Fylgdu okkur á 

  • Facebook Social Icon
bottom of page